22.12.2012 | 11:07
Gleðilega hátíð.
Jólafrí er nú hjá undirrituðum frá innfjarðarrækjuveiðum og hef ég sagt það í gríni " Að það væri lúxus að vera á þessari rækju unnið í tvo mánuði og þar af er annar tekinn í jólafrí". Allt á að vera svona nokkurn veginn klárt til að hefja róðra aftur eftir nýtt ár nema svona smá viðgerðir sem hafa verið trassaðar en maður veit aldrei eins og við fengum að kynnast í byrjun vertíðar.

Hér eru tvær misgóðar myndir af Andra BA kominn í hátíðarbúninginn fyrir þessa hátíð.

Má segja að árið hjá undirrituðum hafi verið nokkuð viðburðarríkt.
Árið byrjaði á því að útbúa Andra BA-101 til innfjarðar og hófust veiðar 9. janúar kvóti var frekar lítil en þrátt fyrir það gengu veiðar vel og vorum við alveg um mánuð að ná okkar skammti sem var 54 tonn.

Besta halið á vorvertíðinni 2012.
Eftir rækjuveiðar var tekin smá pása og svo var haldið til Noregs og hoppað um borð í Polarhav suður í Álasundi þar sem skipið kom inn til áhafnarskifta ( reyndar var bara skift um skipstjóra) eftir hafa verið við offshore (gæslu, vaktoppdrag) störf í Norðursjónum við Atlasvæðið. Frá Álasundi var haldið norður og var ætlunin að hefja þorskveiðar við Lofoten en á miðri leið og þar sem ufsanet voru um borð ákvað undirritaður að prufa ufsaveiðar á Sklinnabankanum og var tekin einn ufsatúr þar svona til að undirbúa áhöfnina undir þorsktörnina. Eftir ufsann var haldið norður og stefnan tekin á Lofoten og þar lendum við í ævintyralega góðu fiskeri og kláruðum þorskkvótann á sex dögum, stóðu sig vel strákarnir þar.

Það var nóg að fiski þarna og burt frá öllu er bara mikil lífsreynsla að taka þátt í svona alvöru vertíð og ímynda ég mér að svona hafi þetta verið heima allavega miðað við sögurnar sem er búið að segja manni bauja við bauju, bátur við bát bara bókstaflega allt fullt af fiski og unnið dag og nótt í fiskverkununum.
Eftir stutta og góða vertíð var Polarhav sent aftur suður í Norðursjó og fylgdi ég með þar vorum við við störf í rúman mánuð og fórum svo til Alasunds og tekið var sumarfrí. Og ég kom heim á klakann en stoppaði ekki lengi því eftir rúmar þrjár vikur heima fór ég aftur og aftur í Norðursjóinn með Polarhav í stuttann túr eftir þann túr kom ég heim og náði í fjölskylduna og við fórum öll til Noregs þar sem ég byrjaði að standsetja Öyfisk (gæluverkefni mitt og útgerðarmannsins.)

Öyfisk.
Komið var til Íslands eftir verslunarhelgi og þá var ákveðið að prufa snurvoð á Andra BA gengu veiðarnar vel en afkoman var ekki góð eftir að búið var að borga leigu fyrir aflaheimildir, svo nú tel ég það fullreynt að gera út á leigukvóta og ætla að reyna komast hjá því framvegis að gera út eða vera á bát sem gerður er út á leigukvóta. Mjög beisk lífsreynsla og hálfgert óbragð enn í munninum eftir að hafa tekið þátt í svoleiðis alltof lengi.
Aftur var það Noregur og en var það gæluverkefnið og tók ég nú með mér Hlyn Björnson og lendum við í mörgum ævintýrum sátum fastir um í slipp lengi vel og áður en við náðum að klára verkefnið vorum við kallaðir heima Arnarfjarðarrækjan að byrja og þá kasta menn öllu frá sér að sjálfsögðu.
Svo árið kláraðist eins og það byrjaði á Arnarfjarðarrækjunni rauðagullinu eins og hún var lengi kölluð. En nú er víst að byrja nýtt ævintýri í Arnarfirði og er reyndar byrjað það er nefnilega laxinn...... Vonandi verður jafn mikilvægt fyrir byggðalagið og þegar rauðagullið fannst og upp úr því var Matvælaiðjan stofnuð sem var bara auðvita stóriðja á landsvísu á þeim tíma. En ég hugsa að undirritaður sleppi laxaævintýrinu þar sem hugurinn leitar annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2012 | 06:58
Ætli neistinn sé farinn
Rólegt hefur það verið á Andra BA-101 í þessari viku ætli kallinn sé búinn að missa neistann?, en höfum við varla komist yfir 2 tonn í róðri þannig að ég held að vikuskammturinn hafi bara verið rétt rúm 11 tonn, og svo kórónaði kallinn þetta með því að taka undirbyrðið úr á fimmtudaginn og var því bætning langt fram á nótt. Svo í gær var rifið í öðru hali og misstum við því dýrmætan birtutíma í bætingu, en svona getur þetta verið þetta er ekki eintóm hamingja að vera rækjusjómaður.
Ýmir BA-32 er búinn með sinn kvóta og erum þá við Brynjar eftir frá Bíldudal og svo Egill ÍS frá Þingeyri. Jólafrí er framundan ætlunin var að róa á mánudaginn en eftir erfiða og svekkjandi viku gæti alveg farið svo að eina sem gert verður á mánudaginn sé að setja upp jólaseríuna.

Egill ÍS að taka trollið í vikunni sýnist vera dálítið af L.Í.Ú fiski.

Verið að losa frá pokanum.

Kallarnir á Brynjar( eða strákarnir á Brynjar hljómar betur) að taka trollið inn á Geirþjófsfirði

Síðasti dagurinn hjá Ýmir BA á þessari vertíð og þeir sennilega búnir að setja upp jólahúfuna.

Hér má sjá kallinn í stöðinni eða símanum hvað annað.
Svo að lokum ein mynd af þessum elskulegum fiskum sem hafa verið að koma alveg óbeðnir í veiðarfærið til að veita áhafnarmeðlimum mikla gleði.

LÍÚ fiskar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Jón Páll Jakobsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 136114
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar